Phone: +354 821 6929
tangoadventure@gmail.com

Send us an email if you want to be put on our mailing list! We send out news of Tango Adventure events and other tango related events.

Vísindi: Tangó hefur jákvæð efnafræðileg áhrif á líkamann

Tangó laðar fram jákvæðar tilfinningar, dregur úr þeim neikvæðu og minnkar stress. Þetta er niðurstaða vísindalegrar rannsóknar sem gerð var af þýskum vísindamönnum. Þeir hafa rannsakað tilfinningaleg og hormónaleg viðbrögð við því að dansa argentískan tangó.

Í vísindalegri rannsókn sem gefin var út í fyrsta hefti internets-tímaritsins “Músík og Medicine” hafa þýskir vísindamenn frá háskólanum í Frankfurt í Þýskalandi athugað nánar, hvaða áhrif það hefur á fólk, bæði líkamlega og tilfinningalega að dansa tangó.

Nánar tiltekið mældu þeir magn hormónsins cortisol og testosterons úr munnvatnssýnum og tilfinningaleg viðbrögð viðkomandi voru metin með svokölluðu “Positive Affect, Negative Affect Schedule” (PANAS)-test, þar sem viðkomandi útfyllir spurningalista um hve oft og hve sterkt hann hefur upplifað röð af mismunandi jákvæðum og neikvæðum tilfinningum.

DANS MEÐ FÉLAGA

Rannsóknin var gerð á afmörkuðu tímabili annað hvert sunnudagskvöld í Academia de Tango í Frankfurt. Hún var framkvæmd þannig, að í 20 mín. var dansað, annað hvort með félaga og tónlist; eða með félaga og án tónlistar; og dans án félaga en með tónlist; og að lokum hreyfingar án félaga og tónlistar.

Fyrir og eftir hvert rannsóknarkvöld var tekið munnvatnssýni og útfyllt PANAS eyðublað frá hverjum þátttakanda. Þau skipti þar sem spiluð var tónlist var um sömu tónlistina að ræða og dansaði maður við félaga, þá var það sömuleiðis sami félaginn sem maður dansaði við hvert skipti.

ÞÁTTTAKENDURNIR

Sjálfboðaliðarnir í rannsókninni voru 11 konur og 11 karlar sem allir höfðu dansað argentískan tangó í minnst eitt ár.

Tvær af konunum og tveir af körlunum höfðu gefið kost á þátttöku sinni einsömul og hittu því dansfélaga sinn í fyrsta skipti í rannsókninni, en hinir höfðu gefið kost á þátttöku með félaga. Sem þakklæti fyrir þátttökuna fengu þau öll ókeypis tangókennslustund.

STREITU HORMÓN

Cortisol er annar af tveimur streituhormónum, sem útleysist til að undirbúa líkamann fyrir auka álag.Annað streituhormón – adrenalín- virkar hraðar og fljótar, en cortisol virkar í lengri tíma. Við langvarandi áhrif af cortisol – á löngu streitutímabili- getur það leitt til langvarandi vandamála og sjúkdóma, t.d. of hás blóðsþrýstings, lækkaðs ónæmisþols, gleymsku, þunglyndis og áhugaleysis/útbrennslu.

AUKIN KYNÁHUGI

Testosteron er fyrst og fremst þekkt sem karlkynshormón, en finnst einnig í minna mæli hjá konum. Testosteron hefur m.a. þau áhrif á bæði kyn, að það eykur hug -og líkamsorku ásamt því að auka kynáhuga.

Oft hefur hátt hlutfall af testósterón í blóði verið tengt árásarhneigð og áhættusamri hegðun, bæði hjá körlum og konum. Eins hefur það þau áhrif að það viðheldur og byggir upp vöðvavef, sem gerir að það hefur verið notað sem uppbyggingarmeðal í íþróttaheiminum.

TVENNS KONAR TILFINNINGAR

Nýleg rannsókn um starfsemi heilans sýnir að jákvæðar og neikvæðar tilfinningar virðast eiga uppruna sinn í sitthvoru svæði í heilanum sem eru óháð hvort öðru.

Einstaklingur getur þannig haft mismunandi, að mestu leyti meðfædda, leið að þessum tveim tilfinningum, þannig að annað hvort getur maður haft margar og sterkar neikvæðar tilfinningar eða margar og sterkar jákvæðar tilfinningar.

Það er sem sagt ekki endilega náttúrleg jöfnun milli jákvæðra og neikvæðra tilfininga.

Rannsóknin sýndi “dálitla aukningu í jákvæðum áhrifum”- sem sagt aðeins meiri jákvæðar tilfinningar bæði við hreyfingu án tónlistar og án félaga og við dans án félaga eða tónlistar. Aftur á móti var áberandi aukning á jákvæðum áhrifum, ásamt falli í neikvæðum áhrifum, við tangódansi með bæði félaga og tónlist.

Á sama hátt urðu einnig mest áhrifin á cortisol við tangódans með félaga og tónlist.Fallið í mældu gildi var 0,7-0,8 nmol/L meðan mæld gildin féllu ekki nærri eins mikið við hinar athuganirnar. Testesteronið hélst að mestu leyti óbreytt við hreyfingu án félaga, en magnið jókst hjá báðum kynjum, þegar hreyfingin var með félaga bæði með og án tónlistar.

TVÆR RANNSÓKNIR

Hingaðtil hafa ekki verið framkvæmdar margar vísindalegar rannsóknir um mismunandi dansa og áhrif þeirra á líkamann. Einn fyrsti höfundur vísindagreinar um þetta efni ; Cynthia Quiroga Murcia, nefnir þó tvær slíkar rannsóknir í sinni grein. Önnur þar sem, eftir ákafan afrískan rythmískan dans, kemur fram aukið cortisol. Og önnur þar sem keppnisdans fór fram að það kom einnig í ljós hærra cortisol magn eftir dansinn, en í því tilfelli voru áhöld um hvort keppnin í sjálfu sér yki áhrif streituhormónsins cortisols en ekki dansinn.

JÁKVÆÐ ÁHRIF

Niðurstaða rannsóknarinnar er alveg ljós: tangódans hefur greinilega jákvæð áhrif á hugarástand dansarans, langt um meira heldur en aðeins hreyfing með félaga eða hreyfing með tónlist.

Áhrifin er einnig hægt að mæla beint í efnafræði líkamans, með greinilegu falli á cortisoli og aukningu á testesteróni. Það er einmitt fallið á cortisoli sem ástæða er til að skoða þar sem þetta þýðir að argentískur tangó er mjög áhrifarík leið eða meðal til að vinna á móti streitu – eitthvað sem u.þ.b. 25% af dönsku þjóðinni er haldin og sem reiknað hefur verið að kosti þjófélagið um 10 millionir DKK á ári.

GÓÐ EFNAFRÆÐI

Það kemur fram í greininni að rannsóknin er mjög lítil og með fáum þátttakendum og þyrfti stærri og viðameiri rannsókn til að kanna m.a. hversu mikilvægt er að dansa með félaga, tónlistarvalið, ákafi hreyfinga, hversu lengi viðkomandi hefur dansað o.s.frv. til að fá fram hversu mikil áhrif dansinn hefur á líkamann.

Persónulega finnst mér þó ekki ástæða til að bíða eftir fleiri vísindalegum rannsóknum í þessu samhengi.

Ég ætla bara að kasta mér út í að rannsaka sælu tangósins sjálfur og get bara hvatt aðra til að gera það líka. Og nú getur maður gert það með þá þægilegu vissu í pokahorninu að það greinilega framkallast jákvæðar tilfinningar og góð efnafræði í þessu fallega samspili – milli þín, dansfélaga þíns og tónlistarinnar – sem kallast argentískur tangó.

eftir Johnny Oreskov, þýtt af Svanhildi Valsdóttur